Cook with our recipes
Við hjá Matarsmiðjunni trúum því að undirstaðan að frábærum mat er gæða hráefni. Grunnurinn að þessu humarsoði eru hægeldaðar humarklær og okkar sérstaka kryddblanda sem setur þetta einstaka humarsoð í hæsta gæðaflokk.
Humarsoðið má nota í klassíska humarsúpu og einnig sem grunn í hina ýmsu sjávarrétti og súpur. Leyfið ímyndunaraflinu að njóta sín!
Til þess að gefa ykkur hugmyndir fylgir uppskrift að okkar uppáhalds sumarrétti sem er Fiskipanna Miðjarðarhafsins. Prófaðu, og hver veit nema þetta verði uppáhaldsréttur fjölskyldunnar.
Klassísk humarsúpa
Innihald:
1 dós Matarsmiðjan humarsoð
250 ml rjómi
100 g humarhalar
1 dl koníak (má sleppa)
Aðferð:
Hitið humarsoðið í potti á vægum hita. Þegar humarsoðið hefur náð tilætluðum hita, bætið humarhölunum út í og koníakinu (ef vill) og sjóðið í 1 mínútu. Berið fram strax með rjóma og söxuðum graslauk ofan á.
Austurlensk humarsúpa
Innihald:
400 ml kókosmjólk
1 dós Matarsmiðjan humarsúpa
1 msk Sambal oelek chili sósa
20 g saxað kóríander, og smá auka
2 msk sojasósa
Aðferð:
Setjið innihaldið í pott, leyfið suðunni að koma upp og sjóðið í 5 mínútur á miðlungshita.
Að auki:
16 tígrisrækjur
8 hörpuskeljar
Að lokum:
Hitið pönnu vel og snöggsteikið tígrisrækjuna og hörpuskelina í mesta lagi 1 mínútu. Raðið skelfiskinum í skálar og hellið Austurlensku súpunni yfir. Skreytið skálarnar með fallegum kóríanderlaufum.
Fiskipanna Miðjarðarhafsins
Innihald:
1 dós Matarsmiðjan humarsoð
1 dós saxaðir tómatar
1 lítill laukur, smátt saxaður
1 hvítlauksrif, smátt saxað
200 g þéttur fiskur, t.d. lúða eða skötuselur skorinn í stóra bita
8 bláskeljar
100 g rækjur
Fersk, söxuð fjallasteinselja eða kóríander
Aðferð:
Saxið laukinn og mýkið við vægan hita í olíu. Bætið við fínlega söxuðum hvítlauknum og steikið í 1 mínútu. Setjið tómatana út í ásamt humarsoðinu og hitið rólega, ekki sjóða. Bætið fiskinum út í, bláskelinni og rækjunum, lækkið hitann og eldið í 3-4 mínútur þar til fiskurinn er soðinn.
Berið fram í skálum, stráið fjallasteinseljunni yfir og njótið ásamt nýbökuðu brauði.
Til að gera fiskipönnuna matarmeiri, prófið að bæta við 200 grömmum af soðnu penne pasta, jafnvel kapers og svörtum ólífum.